Þrátt fyrir að enginn sökudólgur hafi fundist þá eru heimamenn við ána Mindszentas í Ungverjalandi sannfærðir um að útlendingar hafi verið á ferð þegar baðströnd bæjarins var stolið ásamt strandkofum, sólbekkjum og sandi. Lögregla vinnur að rannsókn málsins.
Þar sem Ungverjaland liggur ekki við sjó þá hefur gríðarlegu magni af sandi verið komið fyrir ána til þess að búa til baðströnd. Ströndin er lokuð yfir vetrartímann en nýverið komust heimamenn að því að sex þúsund kúbik metrar af sandi voru horfin sem og allt sem á ströndinni var, meðal annars verslunarhúsnæði.
Formaður bæjarráðs, Etelka Repas, segir þetta fáránlegt og hann hafi talið að gjörsamlega vonlaust væri að stela heilli strönd. Segir hann að svæðið hafi verið hreinsað og lokað fyrir veturinn en fyrr í vikunni kom í ljós að allt var horfið. Segist Repas líklegt að þjófarnir hafi laumast yfir landamærin með ströndina enda sé ekkert eftirlit lengur vegna Schengen landamærasamkomulagsins.