Fullt er út úr dyrum á bökunarnámskeiðum í Bretlandi og talsmenn verslana eru á einu máli: Breskar konur keppast nú við að læra handtökin við baksturinn.
Fulltrúar bresku stofnunarinnar Women's Institute segja jafnframt að fólki sem sækir matreiðslunámskeið hafi fjölgað um 60 af hundraði það sem af er árinu.
Kunnugir segja konur á þrítugsaldri, einkum þær sem eiga börn, í fylkingarbrjósti þessarar vakningar sem rakin er til sjónvarpskokkanna Nigellu Lawson og Deliu Smith, sem galdra fram kræsingar frammi fyrir milljónum áhugasamra áhorfenda.
Ný kynslóð bakara er sögð vera að uppgötva handtökin og konur sagðar þar í miklum meirihluta. Þær hafi fylgst með bakstri mæðra sinna og vilji nú ólmar ná upp sömu færni, að sögn breska blaðsins Daily Telegraph.