Þrjár konur féllu í yfirlið á útsölum tískuverslunarinnar Next í Birmingham á Englandi. Gerðist þetta í mismunandi útibúum Next en boðið var upp á 50% afslátt og opnuðu sumar Next verslanirnar klukkan 5 að morgni.
Sagt er frá því á fréttavef BBC að ein kvennanna missti af opnun útsölunnar þar sem hún féll í yfirlið á meðan hún beið í biðröð og var flutt á sjúkrahús.
Önnur kona féll einnig í yfirlið í annarri Next verslun og var flutt á sjúkrahús.
Grunur lék á að konurnar hefðu ofkælst er þær biðu úti í biðröð þar til útsölur opnuðu.Þriðja konan sem er afgreiðslustúlka hjá Next féll í yfirlið og átti við öndunarörðugleika að stríða, og var kallað á aðstoð fyrir hana.
Talsmaður sjúkraliðs í Birmingham, ráðlagði þeim sem ætla að bíða í biðröð eftir útsölu að klæða sig vel og hafa með sér mat og drykk, til þess að koma í veg fyrir ofþornun eða hungur.