Maður sem var talinn hafa framið sjálfsmorð fyrir tveim árum hefur verið handtekinn af frönsku lögreglunni.
Að sögn Christian Wuilbaut, lögreglustjórans í Lille, sagði í bréfi mannsins að hann ætlaði að kasta sér í sjóinn.
Eftir að bréfið fannst var leitað að líki mannsins sem fannst ekki. Grunsemdir komu upp hjá lögreglu þar sem í ljós kom að maðurinn skuldaði mikið, og hafði sótt um vegabréfsáritun til Alsír.
Maðurinn hafði starfað sem tryggingamiðlari og var haldinn spilafíkn. Hann spilaði með fé fyrirtækis síns og notaði peningana sem hann fékk fyrir að selja tryggingar.
Eftir að hann lét sig hverfa ferðaðist hann til Alsír en sneri síðan aftur til Frakklands.
Hann var handtekinn í úthverfi Parísar í síðustu viku eftir að hann gaf upp sitt eigið nafn þegar hann sótti um vinnu við að selja póstkort.
Mál þetta minnir á Bretann John Darwin, sem hvarf og var talinn látinn þegar flak af kajak hans fannst árið 2002. Darwin birtist svo á lögreglustöð í London í desember 2007 og kvaðst vera minnislaus.
Darwin hefur síðan verið ákærður fyrir líftryggingarsvik og er sakaður um að hafa sett á svið dauða sinn til þess að borga skuldir fjölskyldu sinnar.