Umdeildur breskur yfirlögregluþjónn stendur frammi fyrir því að þurfa að segja af sér eftir að hann sagði e-töflur vera öruggari til inntöku en verkjalyf.
Á forsíðu Daily Mail er birt stór mynd af Richard Brunstrom, yfirlögregluþjóni í Norður-Wales, með fyrirsögninni: Vitlausasti lögreglustjóri í Bretlandi.
Fram kemur á fréttavef Sky News að samtök gegn eiturlyfjanotkun á Bretlandi hafi fordæmt ummæli Richards Brunstrom, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni í Norður-Wales, en hann er fylgjandi því að öll eiturlyf verði gerð lögleg.Aðspurður um hættur eiturlyfja á borð við e-töflur, segir Richard sönnunargögn stjórnvalda sýna að e-töflur séu mun öruggari en mörg önnur lyf og vímugjafa, sem eru löglega fáanleg.
„E-töflur eru ekki eins hættulegar og aspirín. Ef rannsóknir stjórnvalda eru skoðaðar nánar má sjá að e-töflur eru tiltölulega öruggar á miðað við önnur efni. Það er mikill hræðsluáróður í gangi, sérstaklega í kringum e-töflur. Hann er ekki hægt að styðja með sönnunum,” sagði Richard.Richard viðurkennir samt sem áður að e-töflur séu ekki öruggar til inntöku en telur þær ekki vera eins hættulegar og önnur fáanleg efni eins og tóbak og alkóhól.
Lögregluþjónninn, sem hefur verið gagnrýndur af félagi yfirlögregluþjóna fyrir skoðanir sínar, segir bönn ekki virka.
Peter Stoker, talsmaður samtaka gegn eiturlyfjanotkun, segir hættuna, sem stafar af notkun ólöglegra eiturlyfja, ekki aðeins vera þá hversu eitrað efnið er heldur líka hegðanarmynstur notenda, sem getur haft skaðleg áhrif á alla í kringum þá.
Stoker segir athugasemdir Richards vera ósamrýmanlegar stöðu hans og vill að hann segi af sér stöðu yfirlögregluþjóns.