Kyrkislanga nokkur í Nýja Suður-Wales í Ástralíu fékk í magann á dögunum. Ástæðan var sú að hún gleypti fjórar golfkúlur, sem settar höfðu verið í hreiður hænsna til að hvetja þær til að verpa.
Fólkið á bænum aumkaði sér yfir slönguna og fór með hana á dýraspítala. Röntgenmyndir leiddu í ljós, að slangan gæti ekki losnað við boltana á eðlilegan hátt og því var ákveðið að skera dýrið upp.
Aðgerðin tókst vel, að sögn lækna og verður slöngunni, sem fengið hefur nafnið Augusta eftir frægum golfvelli í Bandaríkjunum, sleppt innan skamms úti í náttúrunni.