„Þetta er hjóna- og hjákonuball. Okkur hefur langað til að halda svona ball
og það var auðvitað tilvalið að gera það núna þegar jólin eru búin, fólk í
góðu skapi og allir vinir. Við gerum ráð fyrir því að verðlaunin trekki
sérstaklega að, en sérstök dómnefnd hefur verið skipuð til þess að velja
frumlegustu hjákonuna. Og verðlaunin verða mjög vegleg," segir Benedikt
Guðmundsson á Draugabarnum á Stokkseyri, en staðurinn fer vægast sagt
ótroðnar slóðir í vali á þema fyrir fyrirhugað ball í kvöld.
Hljómsveitin Karma mun leika fyrir dansi og hvetur Benedikt hjón, hjákonur
og einhleypinga til þess að sýna sig og sjá aðra. „Ég býst við mikilli
aðsókn og hef fengið góð viðbrögð við þessu," segir Benedikt, sem kveðst
þess fullviss að góður markaður sé fyrir ball sem þetta.