Sextán ára gamall þýskur piltur hefur verið sendur til Síberíu í þeim tilgangi að fá hann til að láta af ofbeldi. Pilturinn hegðaði sér illa í skóla og heima og beitti bæði samnemendur og móður ofbeldi.
Stefan Becker, yfirmaður félagsmála í borginni Giessen, segir að pilturinn hafi tekið vel í að vera sendur í betrunarvist til Síberíu en viðurkenndi um leið að þetta væri fremur óvenjuleg leið til þess að fá ungmenni til þess að láta af glæpum.
Pilturinn fór til Síberíu fyrir sex mánuðum síðan og dvelur hann á heimili í litlu þorpi ásamt rússneskum leiðbeinanda. Ekki kemur fram í frétt AP fréttastofunnar hversu lengi honum er ætlað að dvelja í Síberíu.
Segir Becker að það sé fátt sem glepji hugann í Síberíu og að drengurinn hafi haldið sig fjarri vandræðum síðan hann kom þangað enda félagarnir ansi langt í burtu. Eins hafi hann lært að bjarga sér. Til að mynda ef hann heggur ekki við í eldinn þá er einfaldlega kalt í húsinu sem hann býr í. Ef hann sækir ekki vatn í fötu þá getur hann ekki baðað sig og svo fram eftir götum.