Sérstakri nefnd sem falið var að rannsaka útgjöld frambjóðendanna til forsetakosninganna í maí í fyrra er sögð hafa fengið áfall þegar hún sá reikninga fyrir andlitsförðun hægrimannsins Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseta.
Sá verður seint vændur um hirðuleysi, andlitsmálunin kostaði sem svarar 3,3 milljónum króna og hver klukkustund með förðunarmeistara allt að 42.750 kr. Sarkozy fékk aðeins 1,14 milljónir endurgreiddar af upphæðinni, með þeirri umsögn að þær keyrðu fram úr öllu hófi. Framboð hans kostaði alls um tvo milljarða króna.
Andstæðingur hans í kosningunum, vinstrikonan Segolene Royal, eyddi enn meiru eða hátt í fimm milljónum kr. í förðunina.