Ræningjar á bifhjóli réðust á konu, drógu upp sveðju og skáru af henni sítt hár, sem hún hafði safnað í tvo áratugi, að sögn lögreglunnar í borginni Aracaju í norðaustanverðri Brasilíu.
Lögreglumaður í borginni sagði að konan hefði verið á leið í kirkju þegar ræningjarnir réðust á hana. Konan hefði ekki látið klippa hárið í 20 ár og það hefði verið um það bil 150 sentímetra sítt. Hann taldi að ræningjarnir hygðust selja hárið sem yrði síðan notað í hárkollu. Hann sagði að svo sítt hár myndi kosta sem svarar 35.000 krónum.