Spænskur ökumaður sem ók niður reiðhjólamann með þeim afleiðingum að sá síðarnefndi lést hefur höfðað skaðabótamál á hendur fjölskyldu hins látna og vill fá bætur fyrir skemmdir sem urðu á lúxusbílnum hans við slysið.
Ökumaðurinn heitir Tomas Delgado og er kaupsýslumaður. Hann ók niður Enaitz Iriondo, sem var 17 ára, fyrir þremur árum, og segir nú að við það hafi orðið skemmdir á Audi A8 bílnum sínum sem kostað hafi sem svarar tæplega hálfri annarri milljón íslenskra króna að gera við.
Spænska blaðið El Pais greindi frá þessu.
Einnig fer Delgado fram á að fá greiddan kostnað er hann hafði af því að leigja sér bíl á meðan gert var við Audiinn.
Samkvæmt lögregluskýrslu var Iriondo einn á ferð í myrkri án endurskinsmerkja og ekki með hjálm þegar Delgado ók á hann. Fjölskylda hans fékk bætur frá tryggingafélagi Delgaods, en viðurkennt var að hraðakstur hans hefði að öllum líkindum átt þátt í því hvernig fór.
Málshöfðun Delgados verður dómtekin í dag. Fjölskylda Iriondos hafði lýst því yfir að hún kenndi í brjósti um ökumanninn vegna þess að hann hlyti að hafa mikið samviskubit út af því að hafa ekið á drenginn. En núna segist fjölskyldan fyrirlíta hann þar sem ljóst sé að hann hugsi ekki um annað en peninga.