Læknar á vegum ísraelska flughersins telja að til greina komi að láta orrustuflugmenn taka Viagra til að bæta frammistöðu þeirra - í loftinu, það er að segja.
Nýleg rannsókn sem ísraelskir læknar gerðu á fjallgöngumönnum í Afríku leiddi í ljós tengsl á milli lyfja við ristruflunum og bættrar frammistöðu í mikilli hæð, að því er ísraelska blaðið Yediot Aharonot greindi frá í dag.
Virka efnið í lyfjunum reyndist gera að verkum að fjallgöngumennirnir þurftu ekki eins mikið súrefni og ella, en súrefnisskortur í mikilli hæð getur leitt til þreytu og svima.
Þessar rannsóknarniðurstöður kveiktu þá hugmynd hjá herlæknunum að láta orrustuflugmenn hersins, sem þurfa að fljúga í allt að 50.000 feta hæð (15.000 metrum), samskonar lyf.
Orsök þessara áhrifa lyfsins mun vera sú, að súrefnisskortur leiðir til hækkaðs blóðþrýstings í lungunum en lyfið dregur úr þeim áhrifum.