Fulltrúar fógetans í Arkhangelsk í Rússlandi beittu nýjum reglum er þeir lögðu hald á bifreið manns sem hafði ekki greitt skuldirnar sínar. Maðurinn var í ökuferð þegar lögreglan stöðvaði hann og tók bifreiðina í sína vörslu, en létu manninn eiga sig.
Fram kemur í rússneska dagblaðinu Izvestia að maðurinn, sem skuldaði fyrrum starfsmanni sínum tæpa eina milljón kr., en lifði hátt engu að síður, hafi verið stöðvaður um 18 km frá Arkhangelsk. Lögreglumenn kölluðu eftir fulltrúa fógetans er þeir höfðu fengið upplýsingar um ökumanninn.
Fógetafulltrúinn lagði hald á bifreiðina á staðnum og neyddist maðurinn að ganga það sem eftir var af leiðinni. Bifreiðin var svo seld á uppboði.
Þetta er í fyrsta sinn sem þessari löggjöf er beitt, en hún tók gildi 1. febrúar sl. Löggjöfin þykir ströng en með henni mega fulltrúar fógetans m.a. fara inn á heimili fólks og leggja hald á hluti fyrirvaralaust.