Ítalskur dómari var í dag dæmdur í eins árs fangelsi fyrir að hafa neitað að sitja í dómssal þar sem róðukross hékk á veggnum. Róðukross sýnir krist krossfestan.
Dario Visconti, sem er lögmaður dómarans, segist hafa orðið fyrir vonbrigðum með úrskurðinn, sem hann mun áfrýja fyrir hönd skjólstæðings síns, Luigi Tosti. „Það að fjarlægja róðukrossa er ekki leið til að móðga kristna menn heldur er þetta leið til að gera dómssali hlutlausa og veraldlega,“ sagði hann.
Tosti hefur staðið í þessari baráttu frá árinu 2003. Hann hefur þegar áfrýjað í öðru dómsmáli sem var höfðað gegn honum vegna sama máls, en þar var hann dæmdur í sjö mánaða fangelsi.
Árið 1926, á tímum fasistastjórnar Benitos Mussolinis, gaf dómsmálaráðuneyti landsins út tilskipun þess efnis að róðukrossar skuli vera í öllum ítölskum dómssölum. Þessu hefur aldrei verið breytt.
Reglulega takast Ítalir á um aðskilnað ríkis og kirkju í landinu og er málið hluti af þeirri deilu.