Dagblað Páfagarðsins í Róm, L'Osservatore Romano, kvartaði sáran undan því að Hollywood hafi ákveðið að verðlauna kvikmyndir sem ættu það sammerkt að vera án vonar og fullar af ofbeldi á Óskaverðlaunahátíðinni sem fram fór í Los Angeles í nótt.
„Í ár heillaðist Hollywood af kvikmyndum sem eru fullar af ofbeldi og síðast en ekki síst án allrar vonar,“ segir í blaðinu, en greinarhöfundur er með orðum sínum að vísa til kvikmyndanna No Country for Old Men eftir Coen-bræðurna og There Will be Blood eftir by Paul Thomas Anderson.
Sem kunnugt er vann No Country for Old Men verðlaun sem besta mynd ársins á verðlaunahátíðinni í gær. Daniel Day-Lewis hlaut Óskarinn fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni There Will be Blood.
„Tímanna tákn? Líklega,“ skrifar blaðamaðurinn Gaetano Vallini í Páfatíðindin. Hann fer hins vegar fögrum orðum um Juno, sem var einnig tilnefnd til verðlauna á hátíðinni, en myndin fjallar um táningsstúlku sem verður ófrísk og ákveður að eiga barnið.