Lögreglan í Japan handtók í síðustu viku karlmann sem var í leyfisleysi á framhaldsskólalóð með hárkollu á höfði og klæddur í kvenkyns skólabúning.
Fram kemur í japanska dagblaðinu Ahsahi Shimbun að Tetsunori Nanpei, sem er 39 ára, hafi tjáð lögreglunni að hann hefði keypt sér búninginn á netinu. Á miðvikudag ákvað hann að klæða sig í hann og fara í gönguferð, en hann gekk að skólanum í Saitama.
Margir nemendur urðu skelfingu lostnir og byrjuðu að hrópa og kalla þegar þeir sáu Nanpei standa við hlið skólans íklæddur skólabúningnum. Hann brá á það ráð að hlaupa inn á skólalóðina í þeirri von að hann næði að hverfa inn í fjöldann.