Mannréttindafrömuðir í Mið-Asíuríkinu Kírgistan hafa efnt til samkeppni um besta baráttulagið gegn veru bandarískra hermanna í landinu, og bjóða í verðlaun sem svarar um 50 þúsund krónum. Ennfremur fær höfundur lagsins að flytja það á samkomu fyrir utan bandaríska sendiráðið í höfuðstaðnum, Bishkek.
„Við ætlum að efna til samkeppni meðal rokkara og rappara. Verðlaun verða veitt, og nema á bilinu 200 til 1.000 dollurum,“ sagði skipuleggjandi samkeppninnar, Igor Trofimov. Ekki fylgdi sögunni hverjir styrktaraðilar séu.
Bandaríski herinn er með flugstöð í Kírgistan sem var sett þar upp 2001 vegna aðgerða í Afganistan. Er flugstöðin ein meginstoðin í vígbúnaði Bandaríkjamanna í Mið-Asíu, en ýmsir baráttusinnar í Kírgistan hafa krafist þess að herinn verði á brott.
Stjórnvöld í Kírgistan hafa virt að vettugi allar kröfur um brottvísun bandaríska herliðsins. Kírgistan er fátækt, fyrrverandi Sovétlýðveldi. Rússar hafa þar einnig herstöð.