Ástralskur sjómaður synti í tíu klukkustundir eftir að bátur sem hann var á sökk við austurströnd Ástralíu og komst við illan leik í land á New Brighton Beach. Honum tókst að gera vart við sig og var félaga hans bjargað nokkru síðar.
Þrír voru um borð í bátnum þegar hann sökk um 15 kílómetrum frá landi og héldu þeir sér í brak til að halda sér á floti. Einn mannanna, Michael Williams, synti svo af stað í von um að ná til lands og sækja hjálp og skildi félaga sína tvo eftir.
Williams var örmagna, illa sólbrenndur og meiddur á höndum og fótum þegar hann fannst á New Brighton ströndinni. Hann gat þó látið vita af félögum sínum tveimur sem biðu á hafi úti.
Annar mannanna, John Jarratt fannst svo síðar á á þeim slóðum þar sem skipið sökk, þjakaður af þorsta og ofkælingu. Hann hefur síðan sagt áströlskum fjölmiðlum að hann muni aldrei aftur fara á haf út.
Enn er leitað að þriðja manninnum, skipstjóra bátsins.