Kráareigandi á Manhattan hefur ákveðið að banna gestum sínum að syngja lagið fræga um „Danny Boy“ á degi heilags Patreks, og segir að fyrir því séu ýmsar ástæður, auk þess sem lagið sé óskaplega dapurlegt.
„Það er of mikið spilað, það hefur verið valið meðal 25 dapurlegustu söngva allra tíma og það á betur við í jarðarför en á Patreksdaginn,“ segir kráareigandinn, Shaun Clancy, sem rekur Foley´s Pub and Restaurant, sem er andspænis Empire State byggingunni.
Einnig nefnir hann sem rök fyrir þessari ákvörðun sinni að lagið sé ekki mikið sungið á Írlandi á Patreksdaginn, og textinn hafi verið saminn af Englendingi sem aldrei steig fæti á írska grund.
Textinn um „drenginn Danny“ var gefinn út 1913. Höfundur hans var enskur lögfræðingur, Frederick Edward Weatherly, sem aldrei kom til Írlands, að sögn Malachy McCourt, höfundar bókar um uppruna lagsins og textans.
Mágkona Weatherlys sendi honum afrit af lagi við gamlan írskan söng, „The Derry Air,“ en nýi textinn sem Weatherly samdi sló rækilega í gegn þegar óperusöngkonan Ernestine Schumann-Heink söng hann á upptöku 1915.
Síðan hafa margar stórstjörnur sungið lagið, allt frá Bing Crosby, Judy Garland, Elvis Presley og Johnny Cash til Cher og Willie Nelson.