Dýrasta málverk sem fyrirfinnst í Svíþjóð er til sölu á hálfvirði, en með ströngum skilyrðum. Verkið er eftir hollenska meistarann Rembrandt og er í eigu konunglegu sænsku listaakademíunnar. Hún er reiðubúin að selja verkið á 300 milljónir sænskra króna, sem er um helmingurinn af því sem verkið er metið á.
En verkið fæst einungis keypt á þessu gjafverði ef kaupandinn samþykkir að gefa það til Þjóðminjasafnsins í Stokkhólmi, þar sem það er reyndar núna og nýtur meiri hylli en flestir aðrir sýningargripir.
„Það hefur hangið í Þjóðminjasafninu síðan 1866. Þar verður það áfram,“ sagði Olle Granath, ritari listaakademíunnar.
Akademían vill selja verkið til að afla fjár til að geta sett upp sýningar og staðið að öðrum viðburðum, sagði hann ennfremur.
Rembrandt málaði verkið á árunum 1661-1662 og heitir það „Samsæri Batavía undir Kládíusi,“ og sýnir uppreisn þýska þjóðflokksins batavía gegn Rómverjum.
Það barst til Svíþjóðar sem arfur og var gefið listaakademíunni 1798.