Rúmlega sextug kona var stöðvuð á flugvellinum í München í Þýskalandi í gær eftir að beinagrind fannst í farangri hennar, pökkuð í plastpoka, að því er lögreglan greindi frá í dag. Reyndust það vera jarðneskar leifar bróður hennar.
Konan er búsett á Ítalíu og var á ferð með vinkonu sinni. Voru þær á heimleið frá Brasilíu. Beinagrindin kom í ljós við gegnumlýsingu á farangrinum.
Lögreglan yfirheyrði konuna og kom þá í ljós að hún var að uppfylla þá hinstu ósk bróður síns, sem lést fyrir 11 árum, að verða grafinn á Ítalíu.
Gátu konurnar lagt fram öll tilskilin plögg frá brasilískum yfirvöldum um heimild til að flytja beinin, og fengu að halda ferð sinni áfram.