Kampavín kostar yfirleitt skildinginn en mismikið þó. Á fimmtudag verður hins vegar heimsins dýrasta kampavín sett í sölu er kassar með tólf flöskum af kampavíni frá Pernod-Richard verða boðnir væntanlegum kaupendum á fimmtíu þúsund evrur, rúmar 5,4 milljónir króna.
Vínið verður einungis í boði fyrir sérlega efnað fólk samkvæmt frétt AFP fréttastofunnar en það verður í sölu í Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi, Kína, Rússlandi, Japan og Sviss. Einungis um 100 manna hópi verður boðið upp á að kaupa vínið, samkvæmt upplýsingum frá Perrier. Hverjum og einum kaupanda verður boðið á fund með yfirmanni kampavínsframleiðslu félagsins en vínið er frá árinu 2000 og nefnist Belle Epoque champagne.
Er þetta heldur dýrara kampavín en Dom Perignon setti á markað árið 2005 en það kostaði 12 þúsund evrur þriggja lítra flaska.
Pernod Ricard framleiðir kampavínin Mumm og Perrier-Jouet og er kampavínið sem nú fer í sölu undir merkjum Perrier-Jouet.
Alls voru fluttar út 150 milljón flöskur af kampavíni frá Frakklandi, heimalandi kampavínsins, á síðasta ári sem er 7,3% aukning frá árinu 2006.