Hvert ólánið á fætur öðru hefur dunið yfir uppfærslu Metropolitan-óperunnar í New York á Tristan og Ísold, eftir Richard Wagner, og á sýningu í gærkvöldi losnaði hluti leikmyndar með þeim afleiðingum að tenórinn datt ofan í hvíslarastúkuna.
Frumsýnt var 10. mars, en ein helsta stjarnan í uppfærslunni, tenórinn Ben Heppner, veiktist og afboðaði sig í fyrstu fjórar sýningarnar. Alls eiga sýningarnar að verða sex. Staðgengill Heppners á frumsýningunni, John Mac Master, fékk afleita dóma.
Gary Lehman tók við af honum á föstudaginn, en þá, í öðrum þætti, fékk sópraninn, Deborah Voigt, svo heiftarlega magakveisu að gera varð hlé á sýningunni til að staðgengill hennar, Janice Baird, gæti tekið við, og þreytt frumraun sína á sviðinu í Metropolitan.
Í gærkvöldi, í þriðja þætti, losnaði hluti leikmyndarinnar með þeim afleiðingum, sem fyrr segir, að Lehman datt ofan í hvíslarastúkuna. Enn var gert hlé á sýningunni, að þessu sinni á meðan læknir leit á Lehman, sem fékk svo að halda áfram.
Fyrirhuguð síðdegissýning á óperunni á laugardaginn hefur ekki verið auglýst, en sýningum Metropolitan síðdegis á laugardögum er jafnan útvarpað um heim allan.
Heppner vonast til að geta tekið þátt í síðustu tveim sýningunum, 25. og 28. mars.