Það orð hefur löngum farið af Þjóðverjum að þeir séu formfastir, og því fékk Ian Baldwin nýlega að kynnast. Hann er framkvæmdastjóri rannsóknasviðs Max Planc-sambandsins í Jena og er með doktorsgráðu í vistfræði frá Cornell-háskóla í Bandaríkjunum.
Fyrir skömmu fékk hann bréf frá lögreglunni þar sem honum var tilkynnt að hann hefði verið ákærður fyrir „Missbrauch des Titelns,“ eða titilmisnotkun, sem er refsivert athæfi samkvæmt lögum sem samþykkt voru í valdatíð nasista 1939 og var ætlað að stemma stigu við erlendum áhrifum í þýskum háskólum.
Lögin kveða á um að hver sá sem hefur doktorsgráðu frá erlendum háskóla verði að fá samþykki þýska menntamálaráðuneytisins fyrir notkun titilsins. Brot á þessum lögum varða sektum og allt að eins árs fangelsi.
Að minnsta kosti tveir aðrir stjórnendur við Max Planc stofnanir í Þýskalandi voru ákærðir af svipuðum sökum. David Heckel, sem er með doktorspróf frá Stanfordháskóla í Bandaríkjunum, og Jonathan Geshenzon, sem er með sömu gráðu frá Háskólanum í Texas.
Lögin banna ennfremur að menn villi á sér heimildir og þykist vera lögreglumenn, læknar eða prófessorar, segir Erik Kraatz, aðstoðarprófessor í lögum við Opna háskólann í Berlín.
Þýskaland er reyndar ekki eina landið í Evrópu þar sem lög ná yfir notkun á háskólatitlum. Á Spáni og í Sviss verða doktorsgráðuhafar einnig að leggja fram sönnun fyrir því að þeir hafi áunnið sér réttinn til að titla sig doktor, en viðurlög í þessum löndum eru einungis sekt, en ekki fangelsi.
En þegar til kom var formfesta Þjóðverjanna þó ekki meiri en svo, að málin gegn Baldwin og Gershenzon hafa þegar verið látin niður falla, og væntanlega er skammt í að eins fari með málið gegn Heckel, sagði Baer Detlef, talsmaður menntamálaráðuneytis Thüringiu.
Í síðustu viku samþykktu menntamálaráðherrar þýsku sambandslandanna að breyta lögunum og bæta bandarískum háskólum á lista yfir þá skóla sem veita prófgráður sem viðurkenndar eru í Þýskalandi.
Baldwin var mest hissa á, að lögreglan skyldi hafa fengið veður af því hvaða gráðu hann hafði, og telur að einhver hafi látið lögregluna vita hvernig málum væri háttað.
„En ekki hef ég hugmynd um hver myndi gera slíkt,“ sagði hann.