Nokkrir brandarar um Vladímír Pútín Rússlandsforseta og arftaka hans, Dímítrí Medvedev, voru fjarlægðir þegar sýnd var upptaka frá kvikmyndahátíðinni Níka í sjónvarpi í Moskvu á laugardag.
Víða um heim hafa fréttaskýrendur velt fyrir sér hvort Medvedev verði raunverulegur forseti eða Pútín, sem studdi hann ákaft, muni áfram halda um valdataumana í reynd. Fram kemur í blaðinu Moskovskí Komsomolets að yfirmaður rússnesku kvikmyndaakademíunnar, Júlí Gúsman, hafi m.a. sagt að venjulega væru flutt boð frá forseta Rússlands á kvikmyndahátíðinni sem er eins konar Óskarsverðlaunahátíð Rússa.
„Þar sem ljóst er að enginn virðist vita með vissu hver er forseti getið þið litið svo á að ég flytji ykkur þau,“ sagði hann. Ummælin voru fjarlægð og sömu örlög hlaut stuttmynd þar sem Pútín var sýndur eins og keisari og Medvedev sem sonur hans.