Stríð tveggja manna við jarðíkorna hafði alvarlegar afleiðingar þegar sprenging leiddi til mikils bruna í dreifbýlishverfi í Alberta í Kanada. Skaðinn á svæðinu er metinn á rúmlega 15 milljónir króna.
Mennirnir tveir notuðust við tæki sem kallast „Rodenator“, e.k. nagdýraeyðir. Það notuðu þeir til að dæla própan gasi og súrefni inn í holurnar hjá jarðíkornunum, svo framkalla þeir sprengingu sem drepur nagdýrin og eyðileggja göngin sem þeir hafa byggt upp.
„Nokkrir hafa leyst nagdýravandræði sín með þessum hætti“, sagði Joe Garssi, slökkviliðsmaður. „Þeir fylltu upp í nokkrar holur með góðum árangri en lentu svo á einni sem var ekki mjög djúp. Þegar þeir fylltu hana með própan gasi þá yfirfylltist hún og úr varð mjög stór sprenging og það kviknaði í grasinu“.
Eldurinn þakti rúmlega 65 hektara svæði og eyðilagði mörg útihús. „Eins og ég lít á þetta þá er staðan; Menn: 8 - Jarðíkornar 1,“ sagði Garssi en mennirnir voru búnir að ganga frá 8 jarðíkornum áður en þeir lentu í hremmingunum, að því er fram kemur á fréttavef Reuters.