Farþegar í litlum strætisvagni í Manila, höfuðborg Filippseyja, urðu skelfingu lostnir þegar þeir urðu varir við 2,1 metra langa kyrkislöngu. Farþegarnir þustu út úr strætisvagninum í dauðans ofboði og stöðvuðu bílaumferð á fjölfarinni götu.
Kyrkislangan hafði vafið sig um stálstöng undir vagninum á leiðinni til höfuðborgarinnar frá bæ í nálægu héraði, að sögn lögreglunnar.
Lögreglumönnum og vegfarendum tókst að koma
kyrkislöngunni í poka eftir að hún skreið út á götuna. Snákasérfræðingur
náttúruverndarstofnunar, sem tók við slöngunni, sagði að hún virtist vera gæf
og vön fólki þannig að hún kynni að vera gæludýr sem hefði
strokið að heiman og húkkað strætó til borgarinnar.