„Óþekktur píkassó krotaði á glugga gæludýraverslunarinnar í nótt með tússpenna. Lögregluhundarnir reiddust þessum skemmdarverkum á matvörubúðinni sinni,“ sagði nýverið í fréttatilkynningu frá lögreglunni í Hameenlinna í Finnlandi.
Höfundur tilkynningarinnar er lögreglumaður í bænum, Ilkka Iivari, og er þetta ekki í fyrsta sinn sem hann hefur lífgað upp á frásagnir af venjubundnum smáglæpum í bænum með stílbrögðum sínum.
En í síðustu viku fékk hann orðsendingu frá finnska innanríkisráðuneytinu þar sem hann var beðinn um að gá að sér.
„Ég fékk smá ábendingu. Ég má halda mínum stíl en það verður að vera skýr greinarmunur á staðreyndum og skáldskap,“ sagði Iivari við Reuters.
Í annarri tilkynningu frá honum sagði:
„Þjófurinn leit á sig í speglinum. Órakaður, þreyttur og sárlangaði í nikótín, og ákvað næla sér í eitthvað hjá kaupmanninum á horninu.“
„Lögreglan mætti senda frá sér tilkynningar í bundnu máli, svo lengi sem hún fylgir stefnu stjórnvalda í almannatengslum,“ sagði Marko Luotonen, talsmaður innanríkisráðuneytisins við Helsingin Sanomat.
Iivari stundar nám í skapandi skrifum í háskóla, og segir að fram að þessu hafi hann ekki fengið nema jákvæð viðbrögð við orðsnilld sinni.