Kýr í formaldehýði, úr einu frægasta verki breska listamannsins Damiens Hirst, lenti í ógöngum nýverið á leið sinni á safn í Tókýó. Verkið heitir Mother and Child Divided, og sýnir hálfa kú og hálfan kálf. Fyrir verkið var hann tilnefndur til Turner-verðlaunanna árið 1995.
Japanir lögðu á sínum tíma blátt bann við innflutningi á bresku nautakjöti vegna hættu á útbreiðslu kúrariðu, og því var verk Hirst samviskusamlega stöðvað af japönskum tollvörðum. Það var talsverð þolraun fyrir safnstjóra Mori safnins að sannfæra tollverði um að jafnvel harðsvíruðustu matgæðingar myndu ekki leggja sér listaverkið til munns.
Þegar leyfið var fengið, kom upp annað vandamál, kýrin og kálfurinn voru farin að rotna eftir tollskoðunina, og á endanum þurftu Japanir að útvega „nýja gerð“ verksins.