Vistmenn í 58 fangelsum í New York í Bandaríkjunum fá að gjöf spilastokka til að hjálpa þeim að drepa tímann. Þetta eru samt ekki venjuleg spil þar sem á þeim eru myndir af manneskjum sem eru týndar og vonast er eftir að þau hressi upp á minnið hjá vistmönnunum og ýti undir lausn á fleiri óupplýstum málum.
Sendir verða 7.200 spilastokkar og innihalda þeir símanúmer þar sem hægt verður að gefa upplýsingar. Einnig eru verðlaun í boði fyrir upplýsingar sem reynast gagnlegar, jafnvel fyrir vistmenn í fangelsum.
Þessi aðferð hefur þegar verið prófuð í fangelsum í Flórída með góðum árangri, að því er fram kemur á fréttavef Reuters.