Feitlagið fólk á síaukinn þátt í því að stuðla að lotslagsbreytingum á jörðinni, samkvæmt kenningum tveggja sérfræðinga breska skólans London Schoolof Hygiene & Tropical Medicine. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Segja þeir ástæðuna vera þá að feitt fólk noti meira eldsneyti til að komast leiðar sinnar en grannt fólk auk þess sem það borði meira og gangi því fremur á náttúrulegar auðlindir jarðarinnar og stuðli þannig að röskun á jafnvægi lífríkisins.
„Við erum öll að þyngjast og það er alheimsvandamál,” segir Phil Edwards, annar sérfræðinganna í viðtali við Reuters. „Offita er hluti vandans. Grannar manneskjur borða minna og auk þess eru meiri líkur á að þær gangi á milli staða í stað þess að fara akandi. Væri fólk almennt grennra myndi bæði draga úr eftirspurn eftir bensíni og matvörum.”Edwards og Ian Roberts greina frá rannsókn sinni í læknaritinu The Lancet en þeir vinna nú að því að finna leið til að reikna út orkunotkun feitlaginna annars vegar og grannvaxinna hins vegar.
Samkvæmt upplýsingum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) eru nú að minnsta kosti 400 milljónir manna of feitar. Þá benda útreikningar til þess að árið 2015 verði þessi tala komin í 2,3 milljarða.