Betra er fyrir börn að foreldrar þeirra gefi þeim tækifæri til að láta sér leiðast en að sífellt sé haft ofan af fyrir þeim. Þetta segir hinn þekkti danski barnasálfræðingur Jesper Juul. Þetta kemur fram á danska vefnum Nyheder fra Navlestreng.
Þá segir hann nútímabörn lifa lífi sínu eftir svo strangri dagskrá að þau fái sjaldan tækifæri til að láta sér leiðast og finna í framhaldi af því að upp leiðir til að hafa ofan af fyrir sér sjálf. Þetta komi í veg fyrir að þau læri að hugsa sjálfstætt og nýti sköpunarkraft sinn.
„Í stórum dráttum þá verða börn háð því að vera sífellt örvuð og þegar þau koma heim til foreldra sinna kalla þau á enn meiri örvun sem foreldrarnir reyna að mæta. Þeir ættu hins vegar að láta það eiga sig,” segir Juul. „Það er nefnilega ekkert að því að börnum leiðist. Þvert á móti. Þannig neyðast þau til að hugsa sjálf og finna sér eitthvað til dundurs í stað þess að vera sífellt örvuð af öðru fólki.”