Þegar páfagaukurinn Yosuke flaug út úr búrinu sínu og villtist gerði hann nákvæmlega það sem honum hafði verið kennt: Sagði nafn sitt og heimilisfang við einhvern sem gat hjálpað honum.
Lögregla kom gauksa til bjargar fyrir hálfum mánuði þar sem hann sat á húsþaki í Nagareymana, skammt frá Tókýó í Japan, og fór með hann á dýraspítala. Lögreglan reyndi síðan að hafa uppi á eigandanum.
Eftir nokkra daga á dýralæknastofunni fór páfagaukurinn að spjalla.
„Ég er herra Yosuke Nakamura,“ sagði hann við dýralækninn. Svo bætti herra Yosuke við fullu heimilisfangi, og skemmti síðan starfsfólki dýraspítalans með söng.
„Við athuguðum heimilisfangið sem páfagaukurinn gaf upp, og viti menn, þar bjó Nakamura-fjölskyldan,“ sagði talsmaður lögreglunnar.
Fjölskyldan hafði í um tvö ár verið að kenna páfagauknum að segja nafn og heimilisfang, sem reyndist honum síðan þarfur lærdómur.