Þýskir unglingar sem stálu bíl töldu sig ekki eiga annan kost færan en að hringja í lögregluna þar sem þeir óttuðust villisvín sem sátu um þá.
Dieter Meier og Reiner Klose, báðir átján ára, stálu bíl og flúðu á honum inn í þykkt skóglendi með lögregluna á hælunum í nágrenni Mecklenburg. Þeim tókst að stinga lögregluna og ætluðu sér að láta lítið fyrir sér fara þar til daginn eftir. En ekki tók betra við er hópur villisvína gerði aðsúg að þeim. Flúðu tvímenningarnir upp í tré en svínin biðu róleg fyrir neðan. Fullir örvæntingar hringdu þeir til lögreglunnar eftir hjálp. Lögregla handtók þá á staðnum en þrátt fyrir það voru unglingarnir alsælir. Enda töldu þeir sig mun öruggari í höndum lögreglu en hjá svínunum.