Heimilislaus kona í Japan bjó í skáp á heimili manns í bænum Kasuya í heilt ár án þess að hann yrði hennar var. Konan fannst eftir að maðurinn tók eftir því að matvæli hurfu sporlaust á heimilinu.
Lögregla fann konuna í skápnum í gærkvöldi í felum í efra hólfi og handtók hana, sagði talsmaður lögreglunnar í Kasuya í dag.
Maðurinn lét koma fyrir eftirlitsmyndavélum á heimilinu eftir að hann varð þess var að matvæli þar hurfu með dularfullum hætti. Eftirlitsvélarnar sendu myndir í farsímann hans, og í gær náðist mynd af einhverjum á ferli í íbúðinni eftir að maðurinn var farinn út.
Hann hringdi í lögregluna og tilkynnti um innbrot. En þegar lögreglan mætti á vettvang voru allar dyr og gluggar vandlega lokuð.
Lögreglan leitaði hátt og lágt og þegar skápurinn var opnaður kom konan í ljós í hnipri.
Hún kvaðst vera heimilislaus og hafa fyrst laumast inn á heimili mannsins fyrir ári síðan þegar hann hafði skilið útidyr eftir ólæstar.
Konan hafði tekið litla mottu til handagagns og komið fyrir í skápnum. Hún hafði einnig farið bað, að sögn lögreglu, sem sagði konuna hina snyrtilegustu.