Yfirvöld í bænum Southampton í New York-ríki hafa afnumið bann við þvottasnúrum.
Bannið var sett árið 2002 eftir að nokkrir íbúanna kvörtuðu yfir því að þvotturinn á snúrum nágranna þeirra gerði bæinn subbulegan. Enginn kvartaði þó þegar bæjarstjórnin samþykkti fyrr í vikunni að afnema bannið sem hafði varðað sekt, andvirði 75.000 króna, eða hálfs árs fangelsi.
Anna Throne-Holst, sem á sæti í bæjarstjórninni, sagði að fjölskylda hennar myndi minnka rafmagnsnotkun sína verulega með því að hengja þvottinn upp á snúru í stað þess að nota þurrkara. „Þegar þrír táningar eru á heimili fer rafmagnsreikningurinn upp úr öllu valdi.“