Bretar eru of tímabundnir til að geta borðað appelsínur í hádegishléinu, og kjósa frekar ávexti sem auðveldara er að afhýða, eins og til dæmis mandarínur, samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar.
Þriðja árið í röð hefur appelsínuneysla í Bretlandi dregist saman, og var í fyrra um tveim prósentum minni en árið á undan, eða um 600 milljónir.
Satsúma-mandarínur og tangerínur verða sífellt vinsælli hádegisbiti hjá útivinnandi fólki, ekki síst vegna þess að þær taka minna pláss, fljótlegra er að afhýða þær og hreinlegra að borða þær.
Mandarínuneysla hefur aukist um 35% undanfarið ár, í um 460 milljónir, og tangerínuneysla hefur aukist um 60%.
En þótt fullorðna fólkið megi ekki vera að því að afhýða appelsínur fyrir sjálft sig hvetur það börnin sín til að borða þær, og hefur appelsínuneysla barna aukist um 15%.