Tvítugur Hollendingur er á sjúkrahúsi vegna meiðsla er hann hlaut þegar hann ásamt tveim félögum sínum beraði á sér óæðri endann síðastliðinn sunnudagsmorgunn.
Lögreglan í Utrecht, þar sem atvikið átti sér stað, segir að félagarnir hafi skemmt sér við að hlaupa um götur með bera botna. Þar kom, að einn þeirra „þrýsti óæðri endanum á sér upp að rúðu á veitingahúsi,“ en ekki vildi betur til en svo að rúðan brotnaði, og „hlaut hann djúpa skurði í afturendann.“
Lögreglan handtók mennina þrjá, en eigandi veitingahússins ákvað að kæra þá ekki þar sem þeir sættust á að borga rúðuna.