Fimmtán kameldýr, nokkur lamadýr og svín struku úr sirkus nærri Amsterdam í gær. Leiðtogi flóttans var gíraffi, sem e.t.v. hafði fengið sig fullsaddan af vistinni. Að sögn lögreglunnar sparkaði gíraffinn upp girðingu og gekk út. Hin dýrin fylgdu í humátt á eftir. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.
Dýrin eru hluti af ferðasirkus sem hafði viðkomu í Amstelveen, tæpum 10 km frá Amsterdam. Flóttinn átti sér stað um kl. 5:45 að morgni og ráfuðu dýrin um götur bæjarins meðan bæjarbúar sváfu en sá eini sem varð var við ferðir dýranna, og amaðist nokkuð við þeim, var hundur nokkur.Þegar flóttans varð vart tóku lögregluþjónar og starfsmenn sirkusins höndum saman. Dýrunum var safnað saman og þau flutt aftur í stíur sínar.