Bandarískur þjófur á yfir höfði sér að fara í fangelsi í fjórða skiptið fyrir sambærileg brot, að brjótast inn í hús og stela kvenmannssokkum. Maðurinn hefur samanlagt verið dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir sokkaþjófnað eða tilraun til að stela sokkum.
James Dowdy, 36 ára, sem hefur verið laus gegn tryggingu, var nýverið tekinn af lögreglu með sokkapar sem hann er talinn hafa stolið úr þvottahúsi einversstaðar á mánudagsmorguninn í Belleville, úthverfi St. Louis. Dowdy var stungið í fangelsi á ný í gær.
Móðir Dowdy segir að hann verði að fá aðstoð sálfræðings vegna sokkaþráhyggju sinnar sem hún segir að hafa þjakað hann alla tíð. Hún telur að þráhyggjan hafi brotist út er hann þurfti að búa með föður sínum í eitt ár þegar hann var barn. Tók hann sokkapar frá móður sinni með til pabba síns og notaði það sem huggun þegar söknuður eftir móðurinni greip um sig.
Móðir hans segir að þetta hvíli þungt á honum og hann vilji frekar deyja en að lifa lífinu með þessa þráhyggju á bakinu. Segir hún að hann sé algjörlega meinlaus og steli aldrei neinu verðmætu. „Hann stelur aldrei neinu nema sokkum," segir móðirin í viðtali við AP fréttastofuna.
Árið 1994 var Dowdy dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir innbrot á heimili. Lögregla greip hann glóðvolgan eftir innbrotið með poka fullan af sokkum. Árið 1997 var hann dæmdur í sex ára fangelsi fyrir að brjótast inn hjá konu og stela sokkum. Árið 2004 var hann enn á ný dæmdur í fangelsi fyrir sokkaþjófnað og nú í sjö ár þrátt fyrir að hafa ekki náð að grípa sokka með sér þar sem lögregla kom að honum við innbrotið.