Mikill skortur er nú á gæsluúrræðum fyrir gæludýr í Danmörku. Segja starfsmenn yfirfullra hundahótela algengt að ráðalausir hundaeigendur, á leið í frí, hóti að skilja hundana eftir eftirlitslausa taki hótelin ekki við þeim. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
„Við erum undir miklu álagi. Það eru allar geymslur fullar og við eigum mjög erfittt með að finna pláss fyrir fleiri hunda. Svo stöndum við frammi fyrir hundaeigendum sem hóta því að láta aflífa hunda sína, að loka þá inni í bíl eða binda þá við tré tökum við ekki við þeim,” segir Anni Lykke Nielsen, starfsmaður hundahótelsins Husdyrenes Vels Internat í Ringe á Fjóni.
„Við höfum þurft að vísa mörgum frá sem ekki hafa pantað pláss í tíma. Hafi fólk ekki samband við okkur í mars getur það ekki gert ráð fyrir að fá pláss hjá okkur yfir sumartímann.”