Stöðugt eru að verða til nýjar íþróttagreinar, sem koma mörgum einkennilega fyrir sjónir í fyrstu. Ein sú óvenjulegasta nú um stundir er skákbox þar sem keppendur þurfa bæði að geta lúskrað á andstæðingunum í hnefaleikahringnum og á skákborðinu.
Keppni í skákboxi hefst við skákborðið. Hvor keppandi hefur 12 mínútna keppnistíma og notuð er skákklukka. Þegar keppendur hafa teflt í fjórar mínútur fara þeir í hnefaleikahringinn og taka eina þriggja mínútna lotu. Þeir fá 1 mínútu hvíld og setjast síðan að nýju við skákborðið. Þannig gengur leikurinn koll af kolli og mest geta taflloturnar orðið sex og hnefaleikaloturnar fimm.
Ýmsar leiðir eru til sigurs í viðureigninni. Keppandi getur rotað andstæðinginn eða unnið á tæknilegu rothöggi. Ef hnefaleikakeppnin er jöfn getur keppandi unnið með því að máta andstæðinginn eða neytt hann til að gefast upp. Þá tapar keppandi einnig falli hann á tíma.
„Þetta er besta hugaríþróttin og besta bardagaíþróttin," segir Iepe Rubingh, sem fann þessa íþrótt upp. Rubingh, sem er 32 ára Hollendingur en býr í París, fékk hugmyndina árið 1992 þegar hann las teiknimyndasögu um tvo þungavigtarhnefaleikara, sem börðust fyrst í 12 lotur og tefldu síðan skák í 45 klukkustundir.
Íþróttin nýtur nú talsverðra vinsælda í Berlín og þar fór m.a. fram heimsmeistaramót nú í byrjun júlí. Sigurvegari varð Nikolay Sazhin, 19 ára gamall Rússi, sem aldrei áður hafði ferðast til útlanda. Sazhin las um leikinn á netinu og hafði samband við Rubingh, sem sendi honum kennslumyndbönd.
Sazhin keppti til úrslita við Frank Stoldt, 37 ára þýskan óeirðalögreglumann, sem varð fyrsti heimsmeistarinn í skákboxi í fyrra. Í úrslitaviðureigninni náði Stoldt strax mun betri stöðu í skákinni en í eftir fyrstu hnefaleikalotuna stóð Sazhin betur að vígi. Stoldt virtist nokkuð utan við sig þegar þeir settust aftur að tafli, skildi drottninguna eftir í dauðanum og neyddist til að gefast upp.
„Það er eins og að horfa á samklipptar myndir að sjá þessa 120 kílóa kalla sitja og tefla skák," hefur AP fréttastofan eftir skákboxaðdáandanum Yarim Fahr, sem fylgdist með einvíginu.