Fyrsta hjónaband endist best, samkvæmt nýrri ástralskri könnun. Könnunin sýnir einnig að samskiptamunstur hjóna er með öðrum hætti í öðru hjónabandi en því fyrsta. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Thomas Nielsen, lektor í sálfræði við háskólann í Árósum í Danmörku, segir samskipti hjóna sem eru í sínu öðru hjónabandi þó oft ganga betur en samskipti hjóna í fyrsta hjónabandi . „Það skapar vandamál þegar samskiptin virka ekki. Það er oft einmitt það sem fer úrskeiðis.
Allar rannsóknir benda til þess að samskipti skipti sköpum þegar kemur að viðhaldi hjónabands,” segir hann. Þá segir hann fólk oft gera minni kröfur í sínu öðru hjónabandi en því fyrsta sem leiði til þess að fólk gagnrýni hvort annað minna.
Á móti komi að fólk í öðru hjónabandi sé oft ekki jafn heillað hvort af öðru og fólk í fyrsta hjónabandi. Þetta leiði til þess að sambandið skipti það minna máli og það gefist því mun fyrr upp á að fá samskiptin til að virka en fólk í fyrsta hjónabandi. Það komi síðan niður á hjónabandinu.
„Þegar aðstæður verða óþægilegar finnst fólki oft hinn aðilinn loka sig inni í skel sinni og neiti alfarið að hafa samskipti. Það er að sjálfsögðu það versta fyrir hjónabandið, að fólk geti ekki talað saman,” segir Thomas Nielsen.