Danski rithöfundurinn Kristian Witt segir margar konur ekki treysta körlunum sínum fyrir að sinna smábörnum, þær geti aldrei stillt sig um að grípa inn í. Oft endi þetta með því að karlinn dragi sig í hlé og sumir yfirgefi jafnvel eiginkonuna. Hann hefur að sögn Jyllandsposten rætt þessi mál við fjölda hjóna.
„Konan heldur fast við að börnin séu á hennar umráðasvæði og vill halda völdum yfir heimilinu. Ef karlinn vill hafa þar einhver völd verður hann að berjast fyrir þeim,“ segir Witt. Ráðleggur hann konunum að halda aftur af sér og láta karlana læra af reynslunni. Konan geti t.d. yfirgefið herbergið þegar hann skiptir á barninu.