Varhugaverðir tölvupóstar

Tölvupóstar geta verið varasamir. Það á sérstaklega við um tölvupósta frá þeim sem hugsanlega hafa óhreint mjöl í pokahorninu. Fjölmörg dæmi eru þessu til sönnunar.

Nýlega birti bandaríska fjármálaeftirlitið (SEC) skýrslu þar sem vitnað er í tölvupósta sem fóru á milli starfsmanna hjá stóru alþjóðlegu matsfyrirtækjunum varðandi hin svokölluðu undirmálslán vegna fasteignaviðskipta, sem eru rótin að vandanum á húsnæðismarkaðinum vestanhafs og víðar. Í skýrslunni er sýnt fram á að greinendur hjá fyrirtækjunum hefðu vitað hver staðan var í tengslum við þessi lán löngu áður en upplýst var um það.

Algengt var að skuldavafningar sem innihéldu jafnt góð fasteignaveðlán sem og undirmálslánin fengju fína lánshæfiseinkunn hjá matsfyrirtækjunum, eða AAA. Þá liggur nú fyrir að þessir vafningar héldu hinum góðu lánshæfiseinkunnum þrátt fyrir vitneskju greinenda hjá matsfyrirtækjunum um þá vankanta sem þar voru á, þ.e. að áhættan væri í sumum tilvikum gríðarlega mikil.

Fram kemur í skýrslu SEC að í tölvupósti frá greinanda hjá einu lánshæfismatsfyrirtækinu segir hann, án þess að skammast sín nokkuð fyrir: „Við skulum vona að við verðum öll rík og komin á eftirlaun þegar spilaborgin hrynur.“ Þetta skrifaði greinandinn til samstarfsmanns síns í desember 2006.

Segir í skýrslu SEC að vandamálið hafi verið það að upp hafi komið hagsmunaárekstrar. Þeir starfsmenn lánshæfismatsfyrirtækjanna sem hafi haft vitneskju um hvert stefndi hafi tekið hagsmuni fyrirtækjanna sem þeir störfuðu hjá framyfir aðra hagsmuni.

Kerfið vill fylgjast með

Dæmin um vitneskju greinenda hjá lánshæfismatsfyrirtækjunum, um að ekki hefði allt verið með felldu varðandi undirmálslánin, eru fleiri en tölvupósturinn hér að framan segir til um. Er í skýrslu SEC greint frá öðrum póstum sem varpa einnig ljósi á vitneskju starfsmanna matsfyrirtækjanna.

Tölvupóstar milli starfsmanna hafa því ekki verið til að bæta ímynd alþjóðlegu lánshæfismatsfyrirtækjanna. En tölvupóstar valda vandamálum á fleiri sviðum. Meirihluti demókrata í bandaríska þinginu stefnir að því að samþykkja lög sem gera stjórnvöldum skylt að varðveita tölvupósta sem þau senda og fá í tiltekinn tíma með sama hætti og á við um bréfleg samskipti. Það líst bandarísku ríkisstjórninni hins vegar ekkert á, einhverra hluta vegna, og hefur Bush foresti hótað að beita neitunarvaldi til að koma í veg fyrir að slíkt frumvarp verði að lögum.

Í Bretlandi hefur þetta mál verið nálgast með öðrum hætti. Þar hafa stjórnvöld verið með áætlanir uppi um að safna saman í gagnagrunn öllum símtölum og tölvupóstum sem fara um fjarskiptafyrirtækin í landinu. Eflaust kemur skáldsagan 1984 eftir George Orwell upp í huga einhverra, en þessar áætlanir breskra stjórnvalda hafa fallið í grýttan jarðveg hjá þeim sem er umhugað um persónuvernd og annað slíkt. Það fer því ekki á milli mála að það er betra að umgangast tölvupósta með varúð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir