Maður nokkur, sem býr í Malmö í Svíþjóð, skuldar jafnvirði 58 milljóna króna í stöðumælasektir, að því er kemur fram í tölum frá sænsku yfirfógetaskrifstofunni.
Samkvæmt yfirlitinu, sem danska fréttastofan Ritzau fjallar um, kemur fram að maðurinn, sem er 34 ára, skuldar samtals 4.286.528 sænskar krónur í stöðumælasektir.
Raunar virðast ökumenn í Malmö vera frekar tregir til að taka upp veskið því annar borgarbúi, 48 ára karlmaður, skuldar sænska ríkinu jafnvirði 46 milljóna íslenskra króna í stöðumæla- og stöðubrotasektir.
Lesa má út úr tölunum, að karlmenn eru í miklum meirihluta á lista yfir þá sem skulda stöðubrotasektir. Ekki er ljóst hvort draga megi þá ályktun að þeir kunni ver en konur að leggja bílum sínum.