Meira kókaín hefur safnast á peningaseðla á Spáni en annars staðar í Evrópu. Efnafræðingar við háskólann í Valencia sem gerðu handahófskönnun á seðlum komust að því að á meðalseðlinum væru 155 míkrógrömm af kókaíni.
Niðurstöðurnar þykja benda til þess að kókaínneysla sé útbreiddari á Spáni en annars staðar í álfunni.
Kókaínsnefill fannst á öllum seðlunum sem mældir voru, en vísindamennirnir telja orsakir þess í mörgum tilfellum vera smitun á milli seðla og seðlatalningavéla.
„Mér þykir ákaflega vandræðalegt að við séum orðið öll með kókaín í seðlaveskjum okkar,“ segir Miguel de la Guardia, einn efnafræðinganna.
Komust vísindamennirnir að því að á þýskum seðlum væri um fimm sinnum minna kókaín en á þeim spænsku. Á þeim írsku evrum sem kannaðar voru fannst enn minna af fíkniefninu – mest mældust 0,576 míkrógrömm á einum seðli. aij