Brjóst, nánar tiltekið geirvarta á málverki eftir ítalska málarann Giovanni Battista Tiepolo, er orðið að stórfelldu opinberu vandamáli á Ítalíu. Sá sem mest hefur barmað sér, er sjálfur forsætisráðherrann, Silvio Berlusconi, en hann hefur horn í síðu brjóstsins.
Réttara væri þó að segja að brjóstið hafi haft horn í síðu hans því listaverkið er staðsett í opinberum vistarverum hans þar sem þingfréttir eru sagðar og sjónvarpsviðtöl við forsætisráðherrann ítalska eru tekin.
Berlusconi fékk það svo loksins fram fyrir skömmu að yfir geirvörtuna væri málað og hún hulin klæðum þar sem hann taldi hana geta farið fyrir brjóstið á viðkvæmum sjónvarpsáhorfendum. Þetta staðfesti talsmaður ráðherrans í viðtali við ítalska blaðið Corriere della Sera um helgina.
„Brjóstið, þessi litla geirvarta, er alltaf í sjónvarpinu, á öllum blaðamannafundum sem hér eru haldnir,“ sagði talsmaðurinn. Hann sagði ennfremur að „brjóstaaðgerðin“ hefði verið gerð að undirlagi ímyndarsérfræðinga forsætisráðherrans.
Antonio Paolucci, forstjóri safna Vatíkansins var þó ekki skemmt, og sagði það löngu liðna tíð, jafnvel í Vatíkaninu, að list sem sýndi nakta líkama væri ritskoðuð.