Sænskur rokksöngvari var nýlega dæmdur til þess að greiða toll af áfengi sem hann hafði með sér inn í Svíþjóð, þrátt fyrir að hann hafi haldið uppi ansi frumlegri málsvörn, en hann sagði búsið nauðsynlegt til þess að geta sinnt atvinnu sinni með eðlilegum hætti.
„Ég drekk umtalsvert meira en meðal-Svíinn. Ég er söngvari í rokkhljómsveit og viskíið er nauðsynlegur hluti af vinnunni,“ útskýrði söngvarinn fyrir rétti.
Rétturinn hafði hins vegar litla samúð með þyrstum rokkaranum og krafðist þess að hann borgaði þann skatt sem honum bar af 45 lítrum af sterku áfengi, 60 lítrum af léttvíni og 300 bjórum.
Sænska vefritið The Local greindi frá, en gaf ekki upp nafnið á hinum 21 árs gamla söngvara.