Þótt ólympíuleikarnir standi nú sem hæst vakti heimsmeistaramótið í gufubaðssetu miklu meiri athygli í Finnlandi en leikarnir í Peking. Í tíu ár hefur verið keppt í Finnlandi um það hver geti setið lengst í gufubaði.
Í ár tóku 165 keppendur þátt frá ýmsum löndum, þar á meðal frá Gambíu, Kanada og Kína. Fólkið sat í 110 gráðu heitu sánabaði og á nokkurra mínútna fresti var vatni hellt á heita steina til að auka enn á hitann.
Í karlaflokki var sigurtíminn 18 mínútur og 15 sekúndur. Sigurvegarinn í kvennaflokki þoldi við í 5 mínútur og 22 sekúndur. Báðir meistararnir eru að sjálfsögðu Finnar.